Frétt

Dagur íslenskrar tungu

Árið 1995 ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði tileinkaður íslenskri tungu ár hvert. Dagurinn var í fyrsta skipti haldinn hátíðlegur árið 1996.

Menntamálaráðuneytið hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls í samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga þennan dag. Flestir skólar eru til að mynda með dagskrá tileinkaða deginum, þar sem nemendur koma saman og syngja, fara með ljóð eða lesa sögur.

Þennan dag hefst einnig í skólunum Stóra upplestrarkeppnin, sem hefur verið starfrækt í grunnskólunum síðan á haustdögum 1996.

Markmið Stóru upplestrarkeppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.

Á tímum stóraukinnar notkunar netmiðla er vert að hafa í huga áhrif enskrar tungu á íslenskuna. Einnig er það áhyggjuefni hve ung börn hafa óheftan aðgang að netmiðlum og ýmsum snjalltækjum, þar sem þau eru oftar en ekki að fást við leiki á ensku. Kennarar hafa fundið fyrir því að börn nota oftar ýmis ensk hugtök en áður.

Sem dæmi má nefna sögu frá umsjónarkennara í 1. bekk. Á fyrstu dögum haustsins rak hann sig á að nemendur notuðu hugtakið „penni“ yfir blýant. Kennarinn hélt að nemendurnir teldu að hugtakið yfir blýant væri penni, en komst síðar að því að nemendurnir voru að nota hugtakið „pen“, beint úr enskri tungu.

Í greininni Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna eftir Sigríði Sigurjónsdóttur kemur fram að hætta er á að snjalltækjavæðingin dragi úr mállegum samskiptum barna og fullorðinna og hins vegar að hún leiði til aukinnar notkunar ensku í málumhverfi barna á máltökuskeiði (Sigríður Sigurjónsdóttir, 2016). Í því sambandi er mikilvægt er að hafa í huga að manneskjan þróar og lærir tungumálið í samskiptum við aðra við endurteknar aðstæður.

Flestir hafa t.a.m. lesið eða heyrt um börn sem hafa af einhverjum ástæðum alist upp meðal dýra og verið „mállaus“ þegar þau hafa fundist. Til að börn læri að tala þurfa þau að búa í ríkulegu málumhverfi þar sem þau hafa góðar málfyrirmyndir, en hafi jafnframt tækifæri til að æfa sig að nota tungumálið í samskiptum við aðrar manneskjur.

Því er afar brýnt að leiða hugann að því hvernig við leyfum börnunum okkar að umgangast og nota hin ýmsu snjalltæki og netmiðla. Snjalltækjavæðingin truflar máltöku barna og málþroska ef hún veldur því að börn og fullorðnir tala það lítið saman að börnin fá ekki nauðsynlegt máláreiti og málörvun (Sigríður Sigurjónsdóttir, 2016).


Verum því vel á verði og gætum að því hve mikinn tíma börnin okkar eru með snjalltækin, hvað þau eru að fást við í þeim og ekki síst á hvaða tungumáli þau eru að nota snjalltækin. Fullorðna fólkið þarf einnig að líta í eigin barm og skoða hvernig snjalltækjafyrirmyndir þeir eru fyrir börnin sín.

Allir dagar eiga að vera dagur íslenskrar tungu

Fyrir Ísland áttu að nota
íslenskunnar fagra hljóm,
elska í ljóði og lausu máli
lands og þjóðar helgidóm.
Úr ljóðinu Fyrir Ísland eftir Guðmund Inga Kristjánsson

Heimildir
Sigríður Sigurjónsdóttir. (2016). Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna.
Sótt 13. nóvember 2017 af http://hugras.is/2016/08/snjalltaekjavaedingin-og-maltaka-islenskra-barna/