Frétt

Dagur leikskólans

Í dag er 6. febrúar en sá dagur hefur verið tileinkaður leikskólunum. Þessi dagsetning tengist íslenskri leikskólasögu því árið 1950 stofnuðu nokkrir leikskólakennarar fyrstu samtök sín.

Í ár verður dagurinn haldinn hátíðlegur í ellefta sinn. Samstarfsaðilar um Dag leikskólans eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra.

Í tilefni dagsins höfum við sett inn á heimasíðuna okkar þrjá bæklinga og veggspjöld sem fjalla um hvernig foreldrar og leikskólakennarar geta eflt orðaforða/málskilning/ máltjáningu og hljóðkerfisvitund barna, ásamt ábendingum um mikilvægi þess að lesa fyrir börn á hverjum degi. En afar mikilvægt er að einstaklingar hafi góð tök á þessum þáttum til að geta síðar tekist á við lestrarnámið í grunnskólanum.

Bæklingarnir heita:

Að efla orðaforða, málskilning og máltjáningu – Hvernig geta foreldrar hjálpað?
Hljóðkerfisvitund - Hvernig geta foreldrar hjálpað?
Mundir þú eftir að lesa með barninu þínu í dag? – Mikilvægi þess að lesa fyrir börn.

Bæklingana er einnig hægt að prenta út í nokkurs konar „veggspjaldaformi“, sem er þá upplagt að hengja upp á hverri deild leikskólans.

Við hvetjum leikskólakennara til að prenta þessa bæklinga út og kynna fyrir foreldrum. Bæklingarnir á heimasíðunni hér eru undir flipunum Bættur námsárangur, 2017-2018, Leikskólar.

Starfsfólk Skólaskrifstofu Austurlands óskar öllum leikskólakennurum til hamingju með daginn og velfarnaðar í starfi sínu.