Frétt

Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi?

Vakin er athygli á verkefninu Austfirskt fullveldi - sjálfbært fullveldi?

Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi?

Ísland fékk fullveldi árið 1918 og nú 100 árum seinna fögnum við því, lítum um öxl og speglum samtíð, fortíð og nútíð. Í dag horfum við einnig fram á afleiðingar loftslagsbreytinga. Stærsta viðfangsefni jarðarbúa er að bregðast við af ábyrgum hætti og snúa við þessari ógnvænlegu þróun sem ógnar lífríki plánetunnar og samfélögum dýra og manna. Til að geta brugðist við þarf samvinnu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Eiga fullveldi og sjálfbærni eitthvað sameiginlegt? Austurland er agnarsmátt samfélag í hnattrænu samhengi.

Níu austfirskar mennta-, menningar- og rannsóknastofnanir hafa tekið saman höndum af tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands og skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi og sjálfbærni og tengslin þar á milli. Afraksturinn verður sýnilegur á eftirfarandi hátt:

Sýningar: Þann 17. júní voru opnar fjórar sýningar vítt og breitt um Austurland. Í Safnahúsinu á Egilsstöðum, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, á Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði og í Randulffssjóhúsinu á Eskifirði. Þar voru börn árin 1918 og 2018 í forgrunni og þeirra líf spegluð við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Fræðsluefni og -hugmyndir: Í tengslum við sýningarnar verður skólahópum boðið að heimsækja söfnin og vinna fræðsluefni þeim tengt.

Auk þess eru á heimasíðunni fjöldi hugmynda að verkefnum sem kennarar og aðrir geta nýtt sér.
Lokahóf: Menntaskólinn á Egilsstöðum býður til hátíðardagskrár þann 1. desember þar sem sýningarnar verða sameinaðar, lokaverkefni nemenda verða kynnt og annað verður í boði.

Heimasíðan www.austfirsktfullveldi.is inniheldur ýmsar upplýsingar, fræðsluefni og fróðleik.

Stofnanirnar sem standa að verkefninu eru Gunnarsstofnun, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Minjasafn Austurlands, Landgræðsla ríkisins, Safnastofnun Fjarðabyggðar, Skólaskrifstofa Austurlands og Tækniminjasafn Austurlands ásamt Austurbrú sem stýrir því.