Frétt

Dagur leikskólans

Í dag er 6. febrúar en sá dagur hefur verið tileinkaður leikskólunum. Þessi dagsetning tengist íslenskri leikskólasögu því árið 1950 stofnuðu nokkrir leikskólakennarar fyrstu samtök sín. Í ár verður dagurinn haldinn hátíðlegur í tólfta sinn. Samstarfsaðilar um Dag leikskólans eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra.

Í tilefni dagsins minnum við á þrjá einblöðunga er nefnast LESTRARRÁÐ TIL FORELDRA LEIKSKÓLABARNA. Í þeim er að finna hugmyndir um hvernig foreldrar geta eflt málþroska og læsi barna sinna.

Lögð er áhersla á mikilvægi þess að foreldrar lesi á hverjum degi fyrir barnið og hugmyndir um hvernig þeir geta eflt málþroska þeirra í gegnum leik og störf s.s. að hlúa að uppbyggilegum samræðum í dagsins önn um hversdagslega hluti, syngja saman o.fl., o.fl..

Mjög mikilvægt er að foreldrar lesi fyrir barn sitt á hverjum degi, með því eru þeir að efla orðaforða, málskilning, máltjáningu og hljóðkerfisvitund barnsins. Þessir þættir eru undirstaðan fyrir lestrarnámið og því mikilvægt að einstaklingar hafi góð tök á þessum þáttum. Ekki má heldur gleyma því að áreiti frá enskri tungu eykst stöðugt og virðast ung börn oft og tíðum bregða fyrir sig enskum orðum s.s. nöfn á litum, tölum, dýranöfn o.fl..

Margir sem koma að uppeldi barna hafa áhyggjur af því að orðaforða og máltjáningu barna fari hnignandi. Því er nauðsynlegt að minna á að tungumálið lærist í gegnum samskipti og á tímum ört vaxandi notkunar snjalltækja er mikilvægt að minna á ævintýraheim bókarinnar.

Einblöðungarnir heita: (smellið á tenglana til að lesa)
Lestrarráð fyrir foreldra 2ja ára barna. 
Lestrarráð fyrir foreldra 3ja ára barna. 
Lestrarráð fyrir foreldra 4 – 5 ára barna.


Starfsfólk Skólaskrifstofu Austurlands óskar öllum leikskólakennurum til hamingju með daginn og velfarnaðar í starfi sínu.