Frétt

Til starfsmanna í leik- og grunnskólum á Austurlandi!

Á þessum sérkennilegum tímum í samfélaginu, langar okkur að senda ykkur baráttukveðjur.

Aðstæður í leik- og grunnskólunum eru afar sérstakar og miklar áskoranir sem þið þurfið að bregðast við á hverjum degi og mikið álag á öllum starfsmönnum. Kennarar eru sérlega úrræðagóðir og fljótir að bregðast við nýjum aðstæðum, enda eru þeir allt árið um kring að fást við ný verkefni. Í þeim aðstæðum sem nú eru hafa kennarar nýtt sér tæknina og beitt henni á ýmsa vegu til samskipta  við nemendur og í kennslu.

Við sem stöndum nú utan við skólana, minnum ykkur á ýmislegt sem gæti hugsanlega létt róðurinn, eða brotið upp daginn.

Fyrst skal telja vef Menntamálastofnunnar, mms.is, en þar kennir ýmissa grasa. Bendum einnig á KrakkaRÚV http://krakkaruv.spilari.ruv.is/krakkaruv/, en þar má finna marga vandaða þætti s.s. Krakkafréttir,  Krakkakiljan, sem er umfjöllun um bækur og Málið þar sem krakkar keppa í þekkingu sinni á íslensku tungumáli s.s. rím, óorð og nýyrðasmíð.  MenntaRÚV  er svo fræðsluþáttur á  léttu nótunum fyrir grunnskólakrakka á aldrinum 6 – 15 ára.

Við hvetjum ykkur svo til að kíkja inn á  Orð af orði síðuna (https://hagurbal.weebly.com/ ) og grípa í verkfæri sem þar bjóðast, en á tímu sem þessum er gaman að rýna í ný orð og skilja merkingu þeirra en jafnframt að hvetja nemendur til að búa til nýyrði.

Þegar aðstæður leyfa til að fara út er hægt að vinna mismunandi orðavinnu, s.s. að safna nafnorðum, sérnöfnum, sagnorðum, lýsingarorðum, rýna í umhverfisorð og búa til orð. Í stærðfræðinni er hægt að búa til allskonar dæmi sem tengjast stokkum og steinum.

Að lokum bendum við á hlekk frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands sveit bakhjarla http://bakhjarl.menntamidja.is/ sem vill aðstoða skólafólk og foreldra á næstu vikum.

Þegar þessu ástandi linnir og við snúum aftur í skólana munum við leggja áherslu á að hitta eins marga nemendur og við getum og vinna að þeim verkefnum sem skólinn hefur óskað eftir, fram að lokum skólaársin. Skilafundir verða að bíða fram í júní eða ágúst.

Með baráttukveðju

Starfsfólk Skólaskrifstofu Austurlands