Að vinna með nemendur

Að vinna með nemendum sem eiga í erfiðleikum

Skólastarfið byggir á samvinnu.

Samvinna starfsfólks er nauðsynleg til að tryggja faglega þróun. Samvinna við heimilin er mikilvæg til að skapa samræmi í kringum nemandann. Að síðustu er samvinna nemenda og kennara mikilvægur hornsteinn náms og gæfuríkrar skólagöngu.

Þegar brestir verða á samvinnu og tengsl rofna er hætt við að væntingar bresti og erfiðleikar geta skapast í kjölfarið.  Ef nemendur lenda upp á kant í skólanum er mikilvægt að skólinn leggi áherslu á að ná samvinnu við nemandann og treysta þau bönd sem skólinn hefur við heimilið.

Við þær aðstæður eru persónuleg tengsl forgangsverkefni. Oft getur reynst vel að nemandinn fái að velja sér til stuðnings þann kennara sem hann treystir best. Sá kennari sem tekur að sér ráðgjafarhlutverkið þarf að vera fyrirmynd, tilbúinn að hlusta á nemandann, hvetja hann og styðja til að setja sér markmið og vinna að þeim. Nemandinn þarf að hafa tækifæri til þess að hitta ráðgjafa sinn daglega. Skilaboðin þurfa að vera í þá átt að kennarinn hafi trú á nemandanum og að nemandinn hafi styrkleika sem geta hjálpað honum í náminu. Kennarar þurfa jafnframt að virða styrkleika nemenda og hjálpa þeim að þekkja þá hjá sjálfum sér.

Traust og þolinmæði eru mikilvægir þættir í þessu sambandi. Varnarhættir nemenda geta valdið því að töluverður tími getur liðið áður en árangur kemur í ljós. Mikilvægt er að setja skýr mörk og sýna ákveðni. Harka í samskiptum er ekki vænleg til þess að skila árangri þar sem hún getur orðið til þess að nemandinn lokar á samstarf. Mikilvægt er að leita uppi smugu til samstarfs og byggja samskipti á hlustun,  hlýju og skilningi, en senda um leið skýr boð um hvaða hegðun er ásættanleg og hvaða hegðun ekki. Benda þarf nemandanum á hegðun sem getur komið í stað þeirrar hegðunar sem er óásættanleg, t.d. í stað þess að ganga um í bekknum og trufla ferð þú að borðinu í horninu og sest niður  þar og skoðar blöð, bækur eða hlustar á tónlist. 

Fyrirmæli til nemandans þurfa að vera skýr og forðast á fyrirmæli í spurnarformi s.s. hvort að nemandinn vilji gera þetta eða hitt. Ef viðurlög eru notuð er þó mikilvægt að ábyrgð nemanda á því hvaða hegðun hann velur sé hjá honum. Sem dæmi ef nemandinn hyggst ekki fara útí frímínútur og viðurlögin eru einvist, þá ítreki starfsmenn ábyrgð  nemandans s.s. þú er að velja það að fara í einvist fremur en að fara út í frímínútur.

Að nemendur njóti jákvæðrar athygli og endurgjafar alltaf þegar tilefni er til er mikilvægur hluti þess að ná tökum á neikvæðum þáttum. Ábyrgð og vitund um eigið nám eru einnig þættir sem nauðsynlegt er að hafa í huga við að stuðla að endurnýjuðum námsáhuga. Þó má ekki gleyma að vellíðan og öryggi nemandans í skólanum er forsenda árangurs og þess að hann geti tekist á við námið. Einnig er mikilvægt að námsefni sem nemendur fá í hendur sé ekki of þungt og að nemendur fái góða leiðsögn við vinnuna.

Skoða þarf með nemandanum hvaða umhverfisþættir hafa áhrif á hegðun hans. Geti nemendur skilgreint hvað ögrar þeim eða kemur af stað óæskilegri hegðun verða þeir meðvitaðri og líklegra er að þeir geti brugðist við aðstæðum og missi síður stjórnina.

Samvinna við nemandann er því lykilatriði þegar tekið er á málefnum einstakra nemenda. Kennarar verða að sýna sveigjanleika og leggja sig eftir persónulegum tengslum við nemandann ef takast á að finna samstarfsgrundvöll. Forðast þarf hörku og neikvæð samskipti og sýna skilning á aðstæðum og sögu nemandans. Hafa þarf hugfast að enginn velur að vera upp á kant og allir nemendur hafa styrkleika sem geta hjálpað þeim í námi. 

i.