Heimanám

Heimanám

Til þess að foreldrar eða eldri systkini geti orðið að sem mestu liði varðandi heimanámið er
mikilvægt að þeir geti fylgst vel með því hvað nemendum er sett fyrir hverju sinni.

Kennari þarf að fylgjast með því að barnið hafi nauðsynlegar upplýsingar um heimavinnu með sér heim úr skólanum (t.d. með því að afhenda vikuáætlanir, fylgjast með að allt heimanámsefni sé skrifað í samskiptabók eða minnisbók nemandans, senda foreldrum tölvupóst o.s.fv.).

Til þess að auðvelda nemanda og foreldrum að forgangsraða heimanáminu getur kennari merkt 1 við það sem er mikilvægast, 2 sem kemur þar á eftir o.s.f.v. eða nota mislit skriffæri (t.d. þar sem grænt þýðir að verkefnið sé mikilvægast en gult að minna geri til þó að því sé sleppt).

Heimanám er best að hafa í eins föstum skorðum og hægt er. Aðstoðið barnið við að koma sér upp fastmótuðum venjum, t.d. þannig að það fái sér hressingu þegar heim er komið en geri svo heimavinnuna í 10-20 mínútur og taki 10 mínútna hlé o.s.f.v. þangað til heimavinnu er lokið.

Til þess að afmarka vinnulotur og hlé er hægt að láta klukku hringja (t.d. eggjaklukku eða vekjaraklukku).

Sumir nemendur (t.d. börn með athyglisbrest með/án ofvirkni) eru oft verkkvíðin og vantreysta sér til ýmissa verka. Gott getur verið að búta heimavinnu hvers fags niður, t.d. með því að segja barninu að fyrst skuli það reikna niður blaðsíðuna, eða 5 fyrstu dæmin, eða taka plúsdæmin fyrst og svo mínusdæmin. Slík vinnubrögð hjálpa barninu svo því finnist heimanámið ekki vera óyfirstíganlegt.

Reynið eins og hægt er að skapa rólegt andrúmsloft á heimilinu meðan á heimavinnu stendur svo sem minnst truflun verði á lærdómnum.

Oft finnst börnum gott að hafa einhvern við hliðina á sér þegar þau eru að sinna heimanámi. Sum börn geta einbeitt sér ágætlega að lærdómnum við eldhúsborðið á meðan foreldrið sinnir matargerð eða öðrum verkefnum. Fyrir önnur börn er nauðsynlegt að foreldrið eða eldra systkini sitji við hlið þeirra á rólegri stað.

Yfirleitt er best að byrja á þeim verkefnum sem eru mest krefjandi og geyma léttustu verkefnin þar til síðast. Eftir það gæti svo komið frjáls leikur eða eitthvað annað sem barninu finnst skemmtilegt.

Þegar vel hefur gengið með heimalærdóminn er hægt að nota eitthvað sem barninu finnst skemmtilegt (t.d. spil eða sjónvarpsáhorf) sem umbun. Í þessu sambandi er “ömmureglan” svokallaða mikilvæg, en hún gengur út á að fyrst framkvæmi barnið það sem ætlast er til og þegar því er lokið fái það þá umbun sem talað hefur verið um.

Afstaða foreldra til náms hefur mikil áhrif á námsframvindu barna og líðan þeirra í skólanum.
Mikilvægt er að foreldrar sýni námi barna sinna áhuga og séu meðvitaðir um hvaða viðhorf til
náms, lesturs og málnotkunar þeir innræta börnum sínum. Ef viðhorf barnsins er neikvætt
gagnvart skólanum er enn mikilvægara að foreldrar leggi áherslu á allt það jákvæða sem tengist námi.

Ein besta leiðin til þess að ná árangri í námi er að sinna öllum verkefnum jafnóðum í stað þess að láta þau hlaðast upp (t.d. fram að helgi eða lengur).

Mikilvægt er að draga ekki heimavinnuna fram á kvöld sé þess nokkur kostur, heldur sinna henni skömmu eftir að komið er heim úr skóla. Margir foreldrar vinna langan vinnudag og eiga því oft erfitt með að leiðbeina börnum sínum fyrr en fer að kvölda. Í þeim tilvikum er hugsanlega hægt að semja við barnið um að það sinni sjálft þeim námsgreinum sem það ræður best við (t.d. að reikna eða skrifa) en geymi afganginn þar til einhver fullorðinn hefur tíma til þess að aðstoða. Stundum er hægt að semja við ættingja (t.d. ömmu eða afa) um að aðstoða barnið þegar það kemur heim úr skólanum.

Að heimavinnu lokinni skal taka saman bækur, heimavinnu og verkfæri sem nauðsynleg eru fyrir næsta skóladag. Sumum börnum er ofviða að sjá um þetta alfarið sjálf og þá þurfa hinir fullorðnu að koma til aðstoðar.

Börn með námserfiðleika og athyglisbrest, hegðunarerfiðleika eða tilfinningaleg vandamál, eru oft mun lengur að vinna heimanámið heldur en jafnaldrar. Áður en heimanámið fer að valda of mikilli streitu og álagi á heimilinu er ráðlegt að foreldrar og kennarar reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig hægt er að auðvelda barninu námið, t.d. með því að setja því minni fyrir en bekkjarfélögum (í lengri eða skemmri tíma) eða með því að veita barninu aðstoð við heimanámið í skólanum. Ýmis hjálpargögn geta auðveldað barninu heimanámið, t.d. hljóðbækur og vasareiknar.
Börn sem eiga auðveldara með að tjá sig munnlega heldur en skriflega geta skilað verkefnum með því að lesa svör sín inn á segulband. Það auðveldar börnum oft líka að vinna verkefni sín ef þeim leyfist að vinna þau á tölvur.