Hugmyndir að lestrarþjálfun byrjenda

Þegar lesið er með börnum sem ekki þekkja alla stafina og eru ekki farin að tengja er góð regla að:

 • Fullorðinn les fyrst textann, sem barnið á að lesa - 
   
 • Barn og fullorðinn lesa saman
 • Í þriðja skiptið reynir barnið sjálft – fullorðinn hljóðar hægt í gegnum orðin, sem barnið stoppar við
 • Gæta þess að láta barnið fylgja textanum með fingri

Þegar búið er að æfa sig á textanum er hægt að láta barnið:

 • Finna orð með:
  ákveðnu hljóði – hljóði sem barnið kann
  ákveðnu hljóði, sem barnið kann ekki ( sem  er verið að reyna að festa í minni)
 • Benda á :
  algeng orð, sem koma nokkrum sinnum fyrir í textanum og barnið telur hvað þau eru mörg, orð eins og t.d. ég – og – sagði – 
  benda á eitt orð inn í textanum og spyrja – manstu hvað stóð hér ? Lesa það þá með barninu hægt og rólega, ef það man það ekki. 

Það er einungis unnið með eitt eða tvö atriði í hvert sinn, ekki fara yfir allar þessar tillögur í hvert skipti. Finna hvaða atriði það eru, sem höfða til barnsins og vinna út frá þeim. Síðan er bara að nota hugmyndaflugið.

Þegar lesið er fyrir börn sögubækur er nauðsynlegt að gefa sér tíma í nokkur eftirfarandi atriði:
 

 • Stoppa við og spyrja um einstök orð - hvort þau viti hvað þau þýða - eitt orð á blaðsíðu t.d. 
   
 • Hvetja þau til að spyrja, ef þau skilji ekki 
 • Láta þau segja frá, t.d. hvað lesið var í gær 
 • Láta þau spá fyrir um, hvað þau haldi að gerist, með því að skoða myndirnar fyrst- ræða síðan um það í lokin, hvort þau spáðu rétt.
   
 • Endurtaka þeirra lýsingar, þannig að þau heyri rétta setningaskipan - láta þau heyra réttar orðmyndir
 • Það má benda á löng orð - stutt orð o.s.frv.