Samskipti systkina

Samskipti systkina

Til þess að börn læri að leysa úr ágreiningi á jákvæðan hátt þarf að kenna þeim það (t.d. að deila eigum sínum með öðrum, hvernig hægt sé að biðja um að fá afnot af eigum annarra og hvernig hægt sé að taka á því ef beiðni er neitað).

Foreldrar þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi í samskiptum sínum. Mikilvægt er að foreldrar séu samkvæmir sjálfum sér í uppeldinu þannig að börnin viti ávallt við hverju þau megi búast af foreldrinu.
Sömuleiðis er mikilvægt að foreldrar séu samstíga í uppeldinu og að samkvæmni ríki þeirra á milli. Þó báðir aðilar séu ekki sammála um hvernig taka eigi á málunum er mikilvægt að foreldrar komist að samkomulagi um hvernig taka skuli á ósætti og hegðunarvanda og framfylgi því þar til annað er ákveðið.
Reynið að koma auga á í hvaða aðstæðum börnin una sér vel saman og ýtið undir slíkar aðstæður. Sömuleiðis er mikilvægt að skilgreina í hvaða aðstæðum ósætti á sér helst stað og finna leiðir til þess að afstýra þeim eða brjóta þær upp.
Reynið að hunsa smávægilegar deilur eða þegar systkini klaga hvort annað. Stundum virðast árekstrar hafa það eina hlutverk að vekja athygli foreldranna. Athygli sem veitt er í slíkum tilvikum er til þess eins fallin að auka ósætti milli barnanna. Gerið börnunum ljóst að þið ætlið ekki að blanda ykkur í málin og að þau séu nógu gömul til þess að leysa úr vandanum sjálf.
Stundum getur þó reynst nauðsynlegt að foreldrar bregðist við. Það skal þó helst aðeins gera þegar foreldrar verða sjálfir vitni að atvikum. Viðbrögð í þeim aðstæðum skulu ávallt vera réttlát.
Gerið öllum börnunum jafn hátt undir höfði og látið þau finna að þið kunnið að meta það sem þau gera vel. Setjið börnunum samt sem áður reglur og réttindi sem hæfa aldri þeirra, þroska og getu.
Forðist samanburð og samkeppni eða að segja að yngra barn eigi að taka eldra systkini sér til fyrirmyndar.
Látið börnin vita fyrirfram að það muni hafa slæmar afleiðingar ef rifrildi og áflog halda áfram. Í þeim ðstæðum er oftast best að láta eitt yfir alla ganga (t.d. að útivist verði stytt um 1 klst. eða að börnin fái ekki að vera í tölvunni þann dag).
Semjið húsreglur í sameiningu, t.d. á fjölskyldufundum. Látið börnin taka virkan þátt í hvaða reglur eru settar. Með því móti er líklegra að þær verði virtar. Setjið fáar en skýrar reglur (t.d. enginn má vera lengur á baðherberginu lengur en 15 mínútur á hverjum morgni. Áður en komið er inn í herbergi annarra skal ávallt banka á hurðina og biðja um leyfi). Setjið helst reglur sem bæði geta gilt um börn og fullorðna á heimilinu.
Haldið reglulega fjölskyldufundi (til að byrja með er best að halda þá vikulega) þar sem húsreglur og samningar eru gerðir og endurskoðaðir í sameiningu eða gæðum úthlutað (t.d. vikupeningum eða umbunum sem tengdar eru einhverju fastmótuðu kerfi).
Látið börnin hafa ábyrgð, t.d. með því að taka þátt í heimilisstörfunum. Takið tillit til aldurs og getu.
Til þess að forðast árekstra þess efnis að hitt barnið komist upp með að gera minna á heimilinu, getur verið gott að koma upp lista yfir hvernig óvinsælum hlutverkum skuli skipt og hver gerði hvað (t.d. vaska upp, fara út með ruslið o.s.fv.).
Listar yfir hver fær að ráða (t.d. hvaða mynd eigi að horfa á í sjónvarpinu) geta einnig komið í veg fyrir ósætti.
Ef föst regla er höfð á því hve lengi og hvenær hvert barn megi t.d. leika sér í tölvuleikjum er hægt að komast hjá misklíð um þau mál. Setjið fasta tíma fyrir tölvuleikina (t.d. 30 mín fyrir kvöldmat).
Gott getur verið að láta eggjaklukku hringja þegar tíminn er liðinn og næsta barn má komast að.
Ef ágreiningur barnanna snýst um hver fái mesta athygli foreldranna er gott að koma á “gæðatíma” (t.d. 30 mínútur fyrir háttatíma eða lengri tíma um helgar) sem eytt er með börnunum til skiptis.
Hrósið börnunum þegar vel tekst til við lausn ágreiningsmála. Veitið því jafnframt jákvæða athygli þegar börnunum tekst að forðast deilur í aðstæðum sem oft valda ágreiningi.
Oft geta umbunarkerfi gefið góðan árangur (þar sem eldra systkini er t.d. umbunað fyrir að lesa fyrir yngra barn eða hlusta á það lesa).