Tölur og vinir

Tölur og vinir

Hvernig geta foreldrar og kennarar  auðveldað börnum að takast á við stærðfræðina?

Í stærðfræðinni læra börnin að vinna með tölur á mismundandi vegu.  Heima geta foreldrar unnið með talnaskiling t.d. með því að sýna barninu að tölurnar eru góðir vinir.

Góðu talnavinirnir eru tvær tölur sem til samans gefa útkomuna 10.

9 + 1

8 + 2

7 + 3

6 + 4

5 + 5

Takið eftir mynstrinu  9-8-7-6-5........   1-2-3-4-5

Að kenna barninu aðferðina um vinina er mikilvæg aðferð þegar kemur að því að læra samlagningu sem gefur aðra útkomu en 10.  Dæmi:  8 + 3 (10) + 1= 11

Hugtök sem þarf að þjálfa

Stærðfræðin er full af alls konar hugtökum sem börnin þurfa að kunna.  Mikilvægt er að börnin kunni vel ýmiss hugtök sem tengjast stærðfræði og geti beitt þeim.  Hugtökin hér að neðan er vel hægt að þjálfa heima í daglegu amstri.
Hér er stuttur listi yfir hugtök stærðfræðinnar sem gott er að barnið kunni vel.

  • Stærri en, minni en
  • Fleiri en, færri en
  • Jafnmargir, jafnt og eða eins og
  • Leggja við, draga frá
  • Á undan, á eftir
  • Efst, neðst
  • Hægri , vinstri
  • Langt, stutt
  • Fyrir ofan, fyrir neðan
  • Litirnir
  • Í allt, til samans
 •  Hringur, ferhyrningur, ferningur, þríhyrningur

 Heima geta foreldrar þjálfað þessi hugtök í daglegu amstri með því að  vekja athygli barnanna á þeim.  Það er hægt að gera þegar verið er að leggja á matarborðið, klæða sig o.s.frv. Dæmi um spurningar:

• Ert þú með fleiri kartöflur en ég?
• Gaffallinn er vinstra megin, hnífurinn hægra megin.
• Ég á eina appelsínu og þú átt tvær.  Hvað eru það margar appelsínur til samans.
• Viltu ná í bláu peysuna þína....

Í gönguferðum er hægt að vekja athygli barna á þeim formum sem við sjáum t.d. í umferðarmerkjum eða húsbyggingum.

 •  Hvaða umferðarmerki á leið okkar eru hringur, þríhyrningur....
  • Hvað eru margir gluggar á ákv. Byggingum ferhyrndir, ferningar....

Námsefnið í stærðfræði í dag byggist mikið á því að dæmin eru sett fram í rituðu máli og þarf barnið að finna út hvernig best er að leysa dæmin.  Oft eiga nemendur í erfiðleikum með þetta og sérstaklega nemendur sem eiga í lestrarvanda.  Þá er mikilvægt að foreldrar/kennarar gefi sér tíma og lesi dæmin með nemendum og setji fram spurningar sem leiða börnin áfram.  Spurningar sem gott væri að setja fram:

  • Hvað þarftu að vita til að leysa þetta verkefni?
  • Hvernig leysirðu þessa spurningu?
  • Ertu  sammála/ósammála þessari lausn?
  • Er lausnin rétt? Hvers vegna/hvers vegna ekki?
  • Er hægt að leysa verkefnið á annan hátt?
  • Leggið ekki áherslu á nákvæmlega rétt svar heldur hlustið á lausnir og
    athugasemdir barnanna.  
  • Það ætti að leyfa börnum að nota vasareikna, talnagrindur eða annað það sem hjálpar þeim að  komast að lausn dæmisins.

Nýtt hjálparefni í stærðfræði er að ryðja sér til rúms í  íslenskum skólum og heitir það Numicon. Efnið er hannað í Bretlandi og hefur verið þýtt á nokkur tungumál. Numicon eru  stærðfræðikubbar fyrir ung börn og seinfæra nemendur. Þessir kubbar auðvelda nemendum námið þar sem þau læra um tölur og stærðir í leik með áþreifanlegum viðfangsefnum og með sjónrænum hætti. Kubbarnir eru hannaðir með það í huga:

• að börn geti handleikið, rannsakað, tekið eftir og kannað ólíkar fyrirmyndir og mynstur, 
•  að kenna börnum á markvissan hátt að tölur eru "meira" eða "minna" en aðrar tölur, 
• að börn læri að sjá tölur sem heildir,  
• að hjálpa börnum að "sjá" magn og koma því yfir í þekkjanleg mynstur, 
• að ýta undir skilning barna á talnagildum og að "sjá" tengslin á milli talna.

Numicon kubbarnir henta vel börnum með stærðfræðiörðugleika, les- og talnablindu, einnig hafa þeir hentað börnum með Downs Syndrome og aðrar fatlanir.

Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, kennsluráðgjafi

Heimildir:
http://www.numicon.com/
http://www.skola.is

Hedegaard, IB : 2003, Undervisningsparat forlældre abz, ALINEA
Kennsluleiðbeiningar með Geisla.